Haukur Sigurðsson

Haukur Sigurðsson

Haukur Sigurðsson er klínískur sjálfstætt starfandi sálfræðingur með áratuga reynslu af sálfræðilegri meðferð og ráðgjöf fyrir einstaklinga, pör og vinnustaði. Haukur hefur haldið hundruð fyrirlestra, m.a. í stærstu fyrirtækjum landsins, auk þess að koma endurtekið fram í sjónvarpi og útvarpi. Starfsferill hans hefur verið stilltur inn á sálfræðilega meðferð við þunglyndi, kvíða, aðlögunarerfiðleikum vegna áfalla, veikindum og erfiðum lífsatburðum.

 

Haukur býr einnig yfir sérþekkingu á sviði atferlislæknisfræði í meðferð við m.a. svefnleysi, eyrnasuði, vöðvabólgu, langvarandi verkjum og höfuðverkjum, auk aðlögunarerfiðleika vegna líkamlegra veikinda. Hann sinnir einnig margþættri þjónustu við vinnustaði, sinnir sálfræðilegri ráðgjöf sem miðar að því að bæta samskipti og ýmsa aðra mikilvæga þætti lífsins, og veitir íþróttafólki ráðgjöf sem miðar að því að hámarka árangur. Haukur hefur yfirgripsmikla reynslu af sálfræðilegri ráðgjöf og stuðningi við framlínu- og viðbragðsaðila á borð við heilbrigðisstarfsfólk, björgunarsveitir og lögreglu.

 

Haukur notar ACT meðferðarkerfi sem almennan ramma í flestum meðferðarlegum inngripum. ACT er byggt á sterkum reynsluvísindalegum sálfræðilegum grunni og miðar að því að auka sálrænan sveigjanleika með samþykktar- og núvitundaraðferðum, hugrænni aftengingu, koma á yfirskilvitlegri sjálfsvitund, mynda tengingu við núverandi augnablik, persónulegum lífsgildum og með því að byggja upp stærri og stærri mynstur skuldbundins atferlis sem er í samræmi við þessi gildi.

 

Haukur er einnig menntaður og þjálfaður ýmsum tegundum atferlismeðferðar, hugrænni meðferð, hefðbundinni HAM meðferð og lífendurgjöf (biofeedback). Þessar aðferðir eru notaðar innan ACT meðferðarkerfisins, eða einar og sér, eftir því sem við á.

 

Haukur Sigurðsson útskrifaðist með B.A. gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2001 og M.A. gráðu í klínískri sálfræði frá BGSU háskóla í Bandaríkjunum árið 2007. Starfsreynsla hans er víðtæk, bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum, og hefur hann meðal annars starfað sem lögreglumaður, íþróttaþjálfari, á geðdeildum, endurhæfingastöðvum og sjúkrahúsum. Hann stýrði Heilsustöðinni sálfræði- og ráðgjafaþjónustu frá árinu 2008 til 2019 og er einn af stofnendum Félags sjálfstætt starfandi sálfræðinga þar sem hann var varaformaður og síðar formaður félagsins frá 2011-2019.

Nánar um Hauk Sigurðsson sálfræðing á www.haukursigurdsson.is

Sálfræðingur