Fjölskyldu- og parameðferð

Boðið er upp á  fjölskyldumeðferð fyrir fólk sem á við vanda að stríða varðandi samskipti og tengsl við sína nánustu.  Fjölskyldumeðferð byggir á þeirri hugmynd að enginn er eyland og fólkið í kringum okkur getur haft gríðarleg áhrif á líðan okkar og aðstæður.  Vandinn getur verið einfaldur,  staðið stutt og hefur meðferðin þá þann tilgang að koma í veg fyrir að hann versni og stækki.  Einnig getur verið um að ræða fjölþættan samskiptavanda og/eða langvarandi álag af ýmsum toga.  

 

Einnig er boðið upp á parameðferð.  Flest pör fara í gegn um allskonar landslag í sambandi sínu.  Slíkt er eðlilegt og mikilvægt er að takast á við hlutina þegar brekkur eru brattar.  Það er að sama skapi mikilvægt að leita sér aðstoðar þegar við finnum að við erum komið í öngstræti.  

 

Lögð er áhersla á að vinna sérstaklega með:

·         Opnari og árangursríkari samskipti.

·         Minni varnarstöðu.

·         Meiri nánd.

 

Algeng vandamál sem fólk leitar sér hjálpar með eru til dæmis þessi:

·         Parið hefur fjarlægst og lifir meira saman sem herbergisfélagar en par.

·         Samskipti eru erfið og einkennast af tíðum rifrildum og pirringi eða þögn.

·         Framhjáhald.

·         Vináttan hefur minnkað eða horfið og varnarstaða aukist.

·         Ósætti hvað varðar fjármál, barnauppeldi og vinnuálag.

·         Mikil utanaðkomandi streita sem hefur áhrif á sambandið og nándina.

 

Einnig bjóðum við upp á sáttamiðlun.  Trúnaðarbrestur af mörgum toga getur komið upp innan fjölskyldna ásamt öðrum samskiptavanda sem getur reynst snúið að leysa.   Þá er rétt að leita til fagaðila um úrlausnir.  Hluti af slíkri meðferð getur falist í sáttamiðlun.  Til dæmis getur fólk þurft á sáttamiðlun að halda eftir skilnað eða eftir ágreining á vinnustað.